Kerlingarfjöll og Fjallabak - 4 daga hálendisferð

Stórkostleg 4 daga ferð um hálendi Kerlingarfjalla, Hrunamannaafréttar, Stóru-Laxárgljúfra, Háafoss, Sigöldugljúfra, Landmannalauga, Eldgjár, Öldufells, Mælifellssands, Mælifells, Brennivínskvíslar og Markarfljótsgljúfra.

Þessi 4 daga ferð er um fáfarnar slóðir Kerlingarfjalla og Fjallabaks, nyrðra og syðra. Gist er í Kerlingarfjöllum, Hálendismiðstöðinni og í Hrífunesi.

Brottför alla föstudaga frá og með 17. júlí til loka september, síðasti brottfarardagur er 18. september.

Stórulaxárgljúfur canyon

Stóru-Laxárgljúfur

 

 

Leiðarlýsing:

FÖSTUDAGUR
Lagt af stað frá Reykjavík og ekið sem leið liggur til Gullfoss og stoppað stutt þar. Það er haldið áfram að Hagavatni og umhverfi þess skoðað. Síðan er haldið áfram yfir Bláfellsháls og framhjá Hvítárvatni og í Kerlingarfjöll. Farið er í Hveradali og gengið þar um og að því loknu er haldið í náttstað hjá Páli í Kerlingarfjöllum. Gist er í 2 manna herbergjum með sérbaði.

LAUGARDAGUR
Nú er haldið í suðurátt til baka, en ekki sömu leið, heldur svokallaðar Leppistungur og ekið austan megin Hvítár í Hrunamannaafrétti og að austurbakka Gullfoss. Þangað er um 20 mínútna gangur og við megum búast við því að vera ein að skoða fossinn frá þessu sjónarhorni. Gullfoss er allt annar foss úr þessari átt. Við höldum áfram og ökum línuveginn meðfram Búrfellslínunni í austurátt og næsta stopp er við Stóru-Laxárgljúfur. Við göngum að gljúfrinum og niður í þau og njótum náttúrunnar þar um stund. Þaðan höldum við áfram að enda línuvegarins og þar er Háifoss, stórkostlega fallegur. Þar stoppum við og hægt er að skoða fossinn bæði að ofan og neðan, en gangan niður í gljúfrið og til baka tekur um klukkustund. Nú er farið að halla degi og við ökum í náttstað, Hálendismiðstöðina Hrauneyjum, á Sprengisandsleið nálægt Tungnaá.

SUNNUDAGUR
Við hefjum daginn á aka í norðurátt að Sigöldugljúfrum með útsýn yfir Krókslón og leiðina sem liggur þaðan að Frostastaðavatni nálægt Landmannalaugum. Við skoðum gljúfrin í dágóðan tíma en snúum svo til baka og ökum niður Sprengisandsleiðina og Landveg að gatnamótum að Landmannaleið sem er oft nefnd Dómadalsleið. Þar er stoppað og hleypt úr dekkjum til að gera ferðina mýkri. Við ökum inn Landmannaleiðina og erum þá að Fjallabaki, með Heklu á hægri hönd og höldum sem leið liggur að Rauðufossum. Þar gefst tækifæri fyrir gönguglaða að skoða Rauðufossa og Rauðufossakvísl og ganga með ánni að upptökum hennar sem er stórfenglegt náttúrufyrirbæri. Gangan getur tekið 2-4 tíma, allt eftir getu ferðalanga. Við höldum áfram og stoppum í Landmannalaugum og borðum þar nesti. Ekki er hægt að stoppa lengur en klukkustund í Landmannalaugum (enda auðvelt að aka þangað á fólksbíl) því við þurfum á tímanum að halda til að skoða Eldgjá og Ófærufoss áður en haldið er í Hrífunes til að njóta dásamlegs kvöldmatar hjá Elínu Þorgeirsdóttur.

MÁNUDAGUR
Nú rennur upp síðasti dagurinn. Við höldum af stað gömlu þjóðleiðina sem lá um Hrífunes og yfir Hólmsána því við ætlum að fara Öldufellsleið að Mælifellssandi. Við stoppum við Hólmsárfossa og njótum náttúrunnar þar og höldum svo áfram að Loðnugiljahaus og þaðan áfram að Öldufelli og Öldudal, förum yfir Bláfallakvíslina og í áttina að Mælifellssandi. Þá komum við fljótlega að gatnamótunum þar sem hægt er að halda til baka með því að fara yfir Hólmsána og þaðan í Skaftártungur og framhjá Ljótarstöðum, en við erum ekki á leiðinni til baka. Nú fer Mælifellið að koma í ljós í allri sinni fegurð. Við ökum í áttina að því á svörtum sandinum og njótum þessarar óvenjulega fallegu náttúru. Þegar komið er að Mælifelli gefst ferðalöngum kostur á að ganga upp á fjallið, en af toppi þess er geysifagurt útsýni yfir Mýrdalsjökulinn (nú erum við norðan við jökulinn). Nú höldum við yfir Brennisteinskvísl og ökum Fjallabaksleið syðri í átt að Hvanngilskróki og Emstrum, en þar skiptist vegurinn og hægt er að halda í norður átt að Álftavatni. Við yfirgefum Fjallabaksleið syðri og förum Emstruleið í átt að Markarfljótsgljúfrum, sneiðum fyrir Hattfell, förum yfir Markarfljótið hjá Mosum og höldum svo áfram framhjá Einhyrningi og niður í Fljótshlíðina og þá erum við komin til byggða. Þá er öllu tekið rólega, ekið á Hvolsvöll og stoppað þar áðurn en haldið er til Reykjavíkur þar sem ferðin endar.

Information

Find More